Hjálmar - Allt er eitt
​
Hvað viltu gera?
Allt er eitt
Græðgin
Blikaðu stjarna
Aðeins eitt kyn
Hættur að anda
Fyrir þig
Undir fót
Lof
Tilvonandi vor
Hlauptu hratt
​
Hjálmar
Þorsteinn Einarsson
Sigurður Guðmundsson
Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson
Helgi Svavar Helgason
Guðmundur Kristinn Jónsson
Samúel Jón Samúelsson, Básúna
Kjartan Hákonarson, Trompet
Óskar Guðjónsson, Saxófónn
Tilvonandi vor
DJ Flugvél og geimskip, söngur og hljómborð
Hljóðritað, hljómblandað og tónjafnað í Hljóðrita
Upptökur: Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson
Aðstoð við upptökur: Friðjón Jónsson
Hljómblöndun: Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson
Tónjöfnun: Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson
Blástursútsetningar: Samúel Jón Samúelsson
Upptökustjórn: Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson
Hönnun: Svavar Pétur Eysteinsson
​
​Útgáfuár 2019
Hvað viltu gera?
Þorsteinn Einarsson
Þú ert með eina lykilinn í vasanum.
Og þú ein getur hleypt mér út úr bílskúrnum.
Og hvað viltu gera?
Hvar á ég að vera?
Þú stjórnar þessu sjóvi með fingrunum.
Segðu bara orðin með vörunum.
Og ég mun hlera -
hvað þú ert að segja.
Ég nenni ekki að dvelja í smáatriðunum.
Heldur hafa yfirsýn á heildarmyndunum.
Og opinbera -
almennilega.
Og hvað viltu gera?
Og hvað viltu gera?
Hvað viltu gera?
Ég hef kannað þessa sýslu þvera og endilanga.
Út á hvert sker og alla tanga.
Loksins fundið það -
sem ég leitaði að.
Einmitt þessa tilfinningu hef ég reynt að fanga.
Og núna finnst mér eins og að það muni ganga.
Ég held ég megi það.
Ég ætla að leyfa mér það.
Já það vil ég gera.
Það vil ég gera.
Það vil ég gera.
Allt er eitt
Þorsteinn Einarsson
Þú ert ég og ég er þú
engin brögð aðeins trú
afar ljúf er sagan sú
og segja vil ég hana nú
Þetta er fallegt ferðalag
við ferðumst jafnt um nótt sem dag
það er okkar þjóð í hag
þá við syngjum fagurt lag
Yfir fjöll og firnindi
ferðumst við í nóttinni
krunkar hrafn í kyrrðinni
kyrjar einn í hlíðinni
Eitt er allt og allt er eitt
á einni nóttu allt er breytt
nú ég efast ekki neitt
allt það hefur þú mér veitt
Græðgin
Þorsteinn Einarsson / Einar Georg Einarsson
Kerling ein gömul sem kunni að spá
karlana blekkti og notaði þá
hún tjáði þeim mest sem borguðu best
og hjá sumum sá
sjúka valdaþrá
einnig fúlgur fjár
frægð sem hrein og klár glæddi gleðitár
Efnisleg gæði með tæki og tól
taka menn fram yfir stjörnur og sól
safna þeir auði en sálin er dauð
telja ennþá að
áfram reddist það
græðgin grimm og hörð
gildi hér á jörð hæfi sinni hjörð
Samt virðist einsýnt að auður og völd
uppskera kvíða í þjónustugjöld
þeim líður verst sem að mammonast mest
ann mjög sjálfum sér
siðblindingjaher
græðir fúlgur fjár
fær svo magasár, andast gugginn grár
​
Blikaðu stjarna
Þorsteinn Einarsson
Á þinn fund
ég held þegar nóttin er dimm
myrkrið svart
nem ég vart
Hvað er það?
sem hjarta mitt þráir svo heitt
komdu hér
segðu mér
Blikaðu stjarna
stjarna skær
megi bjarmi þinn lýsa þeim
og frá illu varna
stjarna kær
sem að rata inn á veginn þinn
á veginn þinn
Þina leið
þú ferð og ég veit að hún er
ætluð öðrum
en mér
Blikaðu stjarna
stjarna skær
megi bjarmi þinn lýsa þeim
og frá illu varna
stjarna kær
sem að rata inn á veginn þinn
á veginn þinn
Aðeins eitt kyn
Þorsteinn Einarsson
Sóin gyllir grund og mar
geislum baðar löndin.
Jafnt um allar álfurnar
öldu kyssir ströndin.
Allir eiga skilið skjól
skúrum frá og vindum.
Hver sem okkur heiminn fól
hlífir öllum myndum.
Það er aðeins eitt kyn
og það er mannkynið.
​
​
Hættur að anda
Sigurður Guðmundsson
Það er tiltölulega hlýtt.
Er eitthvað tapað? Er eitthvað títt?
Sem í andvökudraumi ég er -
ekki ýta við mér.
Ég lenti illa og öllum brá.
Vart þó var þetta sjón að sjá.
Inn í þoku og út í mó.
Klukka í höfðinu sló.
En sem ég geysist til glitrandi stranda
geymir þú önd minna anda.
Hvíli nú hönd minna handa.
Aðeins eitt ég man.
Ekkert mér orkar að granda.
Og þótt ég sé hættur að anda.
Þá mundu að allt sem ég var með þér -
ég þakka það.
En nú er allt orðið gott sem nýtt.
Grösin vaxin og vorið hlýtt.
Þó er eins og eitthvað vanti á -
bara örlítið smá.
Þó ég svífi til silfraðra landa
geymir þú önd minna anda.
Hvíli nú hönd minna handa.
Aðeins eitt ég man.
Ekkert mér orkar að granda.
Og þótt ég sé hættur að anda.
Þá mundu að allt sem ég var með þér -
ég þakka það.
Ég svíf nú til silfraðra landa -
ó ó.
Hvíli nú hönd minna handa.
Aðeins eitt ég man.
Því ekkert mér orkar að granda.
Og þótt ég sé hættur að anda.
Mundu að allt sem ég var með þér -
ég þakka það.
Ó já ég þakka það.
Fyrir þig
Þorsteinn Einarsson
Ég hef verið hér fyrr
ég finn það svo vel
það er eitthvað sem togar í hjartað á mér
Ég finn líkamann eldast
er ég í honum dvel
hann á það til að þreytast á því að vera hér
En ég held áfram veginn
og stikurnar tel
því ég veit að einn daginn mun ég lenda hjá þér
Allt sem ég geri er fyrir þig
ég get ekkert annað
þú togar í mig
allt sem ég geri er fyrir þig
ég sé ekkert annað
annað en þig
Það er rólegt hér inni
og mér líður vel
en ég vil að þú vitir það sem þér ber
Allt sem ég geri er fyrir þig
ég get ekkert annað
þú togar í mig
allt sem ég geri er fyrir þig
ég sé ekkert annað
annað en þig
Undir fót
(dálítil hugleiðing um arfleifð stjórnmálamanns)
Sigurður Guðmundsson
Landi, þér verður ei líknin úr því
að leggja mig undir fót.
Í tötrum þó liggi hér ótalið það
sem ælir þér nokkra bót.
Þó öllu þú sáir og vonir í vor
að visni ekki stráið mjótt.
Þú veiku með lífsmarki lafir í skor
uns leggstu í næstu sótt.
En sjá, þér er borgið
og borgin er þín.
Þótt björgin sé aðeins súr.
Þú glápir en greinir ei annað en
þennan óyfirkleifa múr.
Sumarið líður sem ‘Leiðrétting’ ein
og síðan er komið haust.
Það kólnar og kuldinn þín bítur í bein.
Og köttur í skjólið skaust.
Þó vefjirðu ull utan visnandi kropp.
Með vafa og tættum leir.
Er áranum þyngra að innbyrða popp
ef allur ertu orðinn meyr.
En líttu á mánann og líttu þér nær.
Er logi í æðum rann -
þú gegn varst og gildur,
gjöfull og mildur.
En gjallið í brjósti brann.
Lof
Þorsteinn Einarsson
Enginn veit hve lengi ég mun bíða hér
nóttin leggur líknarhönd á daginn brátt
minningar líða hjá í tímans djúp
skuggar og skin skiptast á í heimi
Ef ég finn þeim orðum stað
á ég eflaust til að segja það
auður stækkar engan mann
en ég vel við þennan fjársjóð kann
Eflaust er auðveldast að hypja sig
en ég gefst ekki upp fyrr en þú ert hér
nei ég fer ekki neitt nema þú sért með
ég fer ekki fet nema þú sért með
Ef ég finn þeim orðum stað
á ég eflaust til að segja það
auður stækkar engan mann
en ég vel við þennan fjársjóð kann
Tilvonandi vor
Sigurður Guðmundsson
Hér var áður kalt.
Hérna blésu vindar.
Eilíft öskufall
í endalausri hríð.
Fyrren birtist mér
þín skínandi mynd.
Tilvonandi vor,
okkar verðandi vor,
blítt líður það vor.
Síðan birtist þú
og þá fór að hlýna.
Allur vafi vék
vitum mínum frá.
Þessir allra átakalausustu tímar..
Þó að stundum rofi til
er oss ekki gert að skilja tímann.
Okkar endalausu för
fylgja ekki nokkrar
öryggishandbækur,
loftpúðar, dúnn eða rör.
Ó ó ó legðu frá þér símann.
Því senn kemur vor,
eftir vetur þá vor,
þú ert alltaf mitt vor.
Hið eilífa vor,
okkar langþráða vor
entist langt fram á vor.
​
Hlauptu hratt
Þorsteinn Einarsson
Þar sem vindar blása
og þar sem vorið kemur seint
þar er nóg fyrir suma
en hinir fá ekki neitt
og mega við það una
að fá því hvergi breytt
Hlauptu hratt
hlauptu hratt vinur minn
þá er auðvelt að gleyma
hlauptu hratt
hlauptu hratt vinur minn
þú skalt láta þig dreyma
Sumir búa í húsum
aðrir búa ekki neitt
þegar haustið kemur
þá er sjaldan hlýtt
ungur nemur sem gamall temur
og þetta er ekkert nýtt
Hlauptu hratt
hlauptu hratt vinur minn
þá er auðvelt að gleyma
hlauptu hratt
hlauptu hratt vinur minn
þú skalt láta þig dreyma