Ferðasót
Leiðin okkar allra
Visa úr Álftamýri
Hafið
Ferðasót
Nú er lag
Þú veist í hjarta þér
Úr varabálki
Spor
Vagga Vagga
Sálmur Boeves
Hjálmar
Sigurður Halldór Guðmundsson
Þorsteinn Einarsson
Guðmundur Kristinn Jónsson
Nils Olof Törnqvist
Mikael Svensson
Petter Winnberg
Hljóðritað dagana 2. til 9. september 2007 í Hljóðrita.
Þú veist í hjarta þér var hljóðritað 14. mars 2007 í Hljóðrita.
Vagga Vagga var hljóðritað í Heitapottinum haustið 2006
Upptökur og hljóðblöndun:
Guðmunur Kristinn Jónsson, Sigurður Halldór Guðmundsson og Styrmir Hauksson
Tónjöfnun:
Styrmir Hauksson
Teikning á umslagi:
Þorsteinn Einarsson
Hönnun og útlit:
Páll Ólafsson
Útgáfuár 2007
Leiðin okkar allra
Þorsteinn Einarsson
Texti: Einar Georg Einarsson
Ég ætla mér út að halda
örlögin valda því
mörgum á ég greiða að gjalda
það er gömul saga og ný
guð einn veit hvert leið mín liggur
lífið svo flókið er
oft ég er í hjarta hryggur
en harka samt af mér
eitt lítið knús elsku mamma
áður en ég fer
nú er ég kominn til að kveðja
ég kem aldrei framar hér
er mánaljósið fegrar fjöllin
ég feta veginn minn
dyrnar opnar draumahöllin
og dregur mig þar inn
ég þakkir sendi, sendi öllum
þetta er kveðjan mín
ég mun ganga á þessum vegi
uns lífsins dagur dvín.
Vísa úr Álftamýri
Þorsteinn Einarsson
Þú sem átt engan að ekki öruggan stað
eða sæng til að hlýja þér í
þú sem misst hefur allt út í náttmyrkrið kalt
ert þú borinn og vistaður því
ef þú átt engan aur ert þú örlítill maur
luktum augum vors yfirvalds í
því að svefndrukkin þjóð fagnar sjálfstæði óð
og allt siðferði brátt fyrir bí
þetta myrkranna afl mannar hættulegt tafl
og þar mennirnir falla eins og strá
þar sem allt snýst um að setja tölur á blað
og þá sitja menn fúlgunum á
af því sem þú hefur er það sem þú gefur
nákvæmlega það sem þú munt fá
engin spurning um trú þetta er lögmál og þú
getur alls ekki komist því hjá.
Hafið
Sigríður Eyþórsdóttir / Þorsteinn Einarsson
Regnið það fellur
í jörðina skellur
rennur í eitt
rennur í eitt
náttdöggin glitrar á blómunum
himnarnir breiða úr sér á túnunum
eldarnir brenna í hjörtunum
mennirnir vakna af svefninum
skýjaborg myndast á himnunum
dropafjöld fellur úr skýjunum
lækirnir renna af fjöllunum
droparnir týnast í fjöldanum
því vil ég vera eins og vatnið.
Ferðasót
Þorsteinn Einarsson
Einn ég reika um aftanbil
ákaft á mig leita
hugsanir sem heyra til
hærri tíðni sveita
í fjarska fjöllin himinhá
fagran dalinn prýða
læt ég tímann líða hjá
lengi mun ég bíða
hér er gott að gista í nótt
göngustaf minn hvíla
þar sem ríkir húmið hljótt
ég hlusta á vindinn ýla
tíðkast græðgi gífurleg
gengið allt úr skorðum
ég vil ganga annan veg
er völva kvað um forðum
halda vil ég heim á leið
hugleiða á tindi
afl það hrindir allri neyð
eykur vorsins yndi.
Nú er lag
Þorsteinn Einarsson
Út við sjónarrönd leynist gullin strönd
og þar kýs ég oft að dvelja
þar er kyrrð og ró út við lygnan sjó
og þar á ég lítinn kofa
sumardægrin löng ég hlýði á fagran söng
sem þar berst mér oft til eyrna
allir una við hreina loftslagið
engin þörf á því að menga
fólk hér kann sér hóf ekkert græðgikóf
hér er kappnóg fyrir alla
ef þú sérð inná við inná annað svið
munt þú heyra sönginn fagra
nú er lag nú er lag
kveikjum nýja elda kveikjum þá í dag.
Þú veist í hjarta þér
Þorsteinn Valdimarsson
Þú veist í hjarta þér
kvað vindurinn
að vegur drottnarans
er ekki þinn
heldur þar sem gróandaþytur fer
og menn þerra svitann af enni sér
og tár af kinn
þú veist í hjarta þér
kvað vindurinn
að varnarblekkingin
er dauði þinn
engin vopnaþjóð er að vísu frjáls, og að vanda sker hún sig fyrr á háls
en óvin sinn
þú veist í hjarta þér
kvað vindurinn
að vald og ríki´er ekki
manngrúinn
hvað þarf stóra þjóð til að segja satt
til að sólarljóð hennar ómi glatt
í himininn?
Úr varabálki
Þorsteinn Einarsson við gamalt íslenskt ljóð
Án kærleika er vonin veik
völt og reikul trúin
líkt sem eik af elli bleik
elds til kveikju búin
hvar sem leið þín liggur hér
lífs meðan eyðir degi
æðstan heiður álít þér
öðrum greiða vegi
synjaðu snauðum síst um brauð
sért ótrauður gjafa
það eru gauð sem neita í nauð
nokkurn auð þó hafa
sérhvern styð með sæmd og trú
sem þú lið mátt færa
gakk á snið við það sem þú
þarft ei við að hræra
sína hver einn byrði ber
böl þá sker sem líða
gefið hér ei öllum er
auðnu sér að smíða.
Spor
Þorsteinn Einarsson
Vertu sæll kæri vinur ég kveð þig nú
með sorg í hjarta og tár á kinn
þótt fenni í sporin þín þá lifir lag þitt enn
þú löngum spannst þín draumaljóð
á hverjum morgni rís sólin
og stafar geislum inn til mín
hún lýsir upp daginn
og þerrar öll mín tár
breiðir úr sér um bæinn
og heilar öll mín sár
þó að nóttin klæðist myrkri
sem móðir dagsins hún þér ann
og þegar skuggar leita á þig
kæri vinur mundu að
á hverjum morgni rís sólin
og stafar geislum inn til þín
hún lýsir upp daginn
og þerrar öll þín tár
breiðir úr sér um bæinn
og heilar öll þin sár.
Vagga vagga
Þorsteinn Einarsson / Einar Georg Einarsson
Vagga vagga
vagga mér í nótt
vagga vagga
vektu nýjan þrótt
þú kannt að sefa sorgir
sofnar borgin vært og rótt
rugga rugga
rugga mér í blund
rugga rugga
rökkrið felur sund
þín hönd er góð og gjöful
gleður hressir særða lund
vagga vagga
vaktu yfir mér
vagga vagga
vertu altaf hér
þú kannt að kynda elda
kyrrlát nóttin fögur er.
Boeves Psalm
Lars Hollmer